Karlalið Selfoss í handbolta reið ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn Víkingum í 1. deildinni í kvöld, þegar liðin mættust í Víkinni.
Heimamenn spiluðu hörkuvörn í upphafi leiks og komust í 8-2 eftir fimmtán mínútna leik. Liðin skiptust svo á að skora fram að hálfleik og staðan í leikhléi var 13-7.
Leikurinn var jafn framan af síðari hálfleik en um hann miðjan höfðu Víkingar 17-11 forystu. Þá bættu heimamenn í og náðu mest tíu marka forskoti, 23-13 og 25-15. Selfyssingar réðu lítið við varnarmúr Víkinga í leiknum en skoruðu þó síðustu tvö mörk leiksins. Lokatölur 25-17.
Sævar Ingi Eiðsson var markahæstur Selfyssinga með 4 mörk, Guðjón Ágústsson, Elvar Örn Eiðsson, Andri Már Sveinsson og Matthías Örn Halldórsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Daníel Róbertsson, Ómar Vignir Helgason, Hörður Másson, Hergeir Grímsson og Jóhann Erlingson skoruðu allir eitt mark.
Selfyssingar hafa nú fjarlægst toppbaráttuna og eru í 5. sæti deildarinnar með 11 stig. Grótta er á toppnum með 18 stig og Víkingar í 2. sæti með 16 stig.