Fyrstu fimmtán mínútur leiksins voru nokkuð rólegar en Þorsteinn Daníel Þorsteinsson átti fyrsta færi Selfyssinga sem eitthvað kvað að. Markvörður KV varði þá naumlega hörkuskot frá Þorsteini.
Á 22. mínútu leiksins var einn leikmanna KV rekinn af velli fyrir brot og fimm mínútum síðar kom Ingvi Rafn Óskarsson Selfyssingum yfir. Hann potaði boltanum þá auðveldlega inn eftir fyrirgjöf frá hægri frá Magnúsi Inga Einarssyni. Manni fleiri og marki yfir var eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir Selfyssinga.
Magnús Ingi var nálægt því að skora eftir klafs í vítateig KV á 30. mínútu en heimamenn björguðu á línu. Þeir komu hins vegar engum vörnum við á 45. mínútu þegar Andy Pew skoraði með skalla og staðan var 0-2 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var mjög rólegur en á síðustu tuttugu mínútunum fór að færast fjör í leikinn. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson fékk tvö ágæt færi en tókst ekki að skora en á 78. mínútu kom þriðja mark Selfoss. Hafþór Mar Aðalgeirsson skoraði þá glæsilegt mark af 30 metra færi eftir að Magnús Ingi vann boltann.
KV náði að minnka muninn í uppbótartíma eftir mikinn hamagang í vítateig Selfoss og lokatölur urðu 1-3.
Selfoss er nú í 6. sæti deildarinnar með 11 stig og mætir næst Haukum á heimavelli fimmtudaginn 3. júlí.