Selfoss varð fyrsta liðið til að sigra Hauka í 1. deild karla í körfubolta en liðin mættust í Gjánni á Selfossi í kvöld. Á sama tíma tapaði Hamar gegn Sindra.
Leikur Selfoss og Hauka var jafn í fyrri hálfleiknum þar sem bæði lið sýndu fín tilþrif og skiptust á að gera áhlaup. Staðan í hálfleik var 46-47, gestunum í vil. Haukar mættu ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og náðu sextán stiga forskoti 50-66. Selfoss minnkaði muninn undir lok 3. leikhluta og fjórði leikhluti varð æsispennandi.
Selfoss komst yfir, 81-77, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og þeir héldu forskotinu til loka. Lokasekúndan var reyndar ævintýralega spennandi því Haukar fengu þrjú vítaskot þegar 1,2 sekúndur voru eftir í stöðunni 88-85. Tvö fyrstu skotin rötuðu ofaní og en Haukar unnu boltann í kjölfarið eftir að dómarar leiksins höfðu brugðið sér í gönguferð upp í áhorfendastúkuna til þess að taka ákvörðun af myndbandsupptöku.
Selfyssingar vörðust hins vegar fimlega og fögnuðu 88-87 sigri innilega í leikslok. Trevon Evans og Gasper Rojko voru allt í öllu hjá Selfyssingum. Evans skoraði 34 stig og Rojko 31 en samtals skoruðu þeir félagarnir 74% af stigum Selfyssinga.
Hamar fann ekki neistann
Hamar fékk Sindra frá Hornafirði í heimsókn þar sem gestirnir unnu öruggan sigur, 70-97. Sindramenn byrjuðu mun betur og leiddu í hálfleik 32-54. Hamar svaraði fyrir sig í 3. leikhluta en forskot Sindra var öruggt og gestirnir bættu enn í á lokametrunum. Ragnar Magni Sigurjónsson var stigahæstur hjá Hamri með 24 stig.
Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 8 stig en Hamar er í 6. sæti með 4 stig.
Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 34/5 stoðsendingar, Gasper Rojko 31/6 fráköst, Arnar Geir Líndal 8, Vito Smojer 6, Óli Gunnar Gestsson 6/7 fráköst, Sigmar Jóhann Bjarnason 3.
Tölfræði Hamars: Ragnar Magni Sigurjónsson 24, Joao Lucas 19/6 fráköst, Dareial Franklin 10/7 fráköst/6 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 8/5 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 4/5 fráköst, Arnar Dagur Daðason 3, Bjarki Friðgeirsson 2.