Selfyssingar magnaðir í Krikanum

Atli Ævar Ingólfsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu magnaðan sigur á FH í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í Kaplakrika í kvöld, 27-28.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur, FH byrjaði mjög vel og komst í 6-2 en Selfoss skoraði þá þrjú mörk í röð og jafnaði skömmu síðar 10-10. Staðan í hálfleik var 12-12.

Í seinni hálfleik náði FH sér aftur á strik í upphafi en þá tóku Selfyssingar heldur betur við sér, skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 15-18. Mestur varð munurinn fimm mörk, 20-25, en FH nálgaðist hratt undir lokin og hefði getað jafnað á lokamínútunni ef ekki hefði verið fyrir tvær frábærar vörslur hjá Vilius Rasimas.

Atli Ævar Ingólfsson átti magnaðan leik og var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk í 7 skotum. Hergeir Grímsson skoraði 6 og var frábær í vörn og sókn, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 4/1, Ragnar Jóhannsson 4, Hannes Höskuldsson, Einar Sverrisson og Alexander Egan skoruðu allir 2 mörk og Tryggvi Þórisson 1.

Vilius Rasimas varði 13/2 skot og var með 33% markvörslu.

Liðin mætast næst á Selfossi á mánudagskvöld klukkan 19:30 og með sigri þar tryggja Selfyssingar sér sæti í undanúrslitum deildarinnar.

Fyrri greinÖryggið á oddinn
Næsta greinNauðlenti paramotor við Selvog