Keppendur frá taekwondodeild Umf. Selfoss náðu frábærum árangri á opna skandinavíska meistaramótinu í sparring sem haldið var í Horsens í Danmörku um helgina.
Daníel Jens Pétursson vann gull í -80 kg karlaflokki og var kosinn keppandi mótsins. Bróðir hans, Davíð Arnar, vann silfur í -33 kg kadettflokki og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir vann gull í seniorflokki kvenna.
Mótið var gríðarsterkt og fjöldi keppenda frá öllum Norðurlöndunum og því óhætt að fullyrða að íslensku keppendurnir hafi staðið sig frábærlega.
„Að vinna til verðlauna á svo sterku móti er mikill heiður og hvatning til að standa enn betur við bakið á afreksfólki okkar og einnig til að hlúa betur að uppbyggingastarfi deildarinnar. Einnig vekur árangur þeirra athygli hinna keppendanna og mótshaldara á Íslandi,“ sagði Stefán Pétursson, stjórnarmaður í deildinni, í samtali við sunnlenska.is
„Þessi árangur okkar frábæra taekwondofólks er mikil hvatning fyrir alla sem stunda íþróttina og mun verða þeim hvatning til að gera enn betur á æfingum, mótum og í keppni.“