Selfyssingar með bakið upp við vegg

Vojtéch Novák skoraði 12 stig og tók 11 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir með bakið upp við vegg eftir 91-110 tap gegn Ármanni í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Ármann leiðir 2-0 í einvíginu.

Ármenningar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 49-57. Selfyssingar mættu ferskir inn í seinni hálfleikinn og um miðjan 3. leikhluta höfðu þeir minnkað muninn í þrjú stig, 70-73. Þá tók Ármann við sér aftur en Selfossliðið var aldrei langt undan.

Snemma í 4. leikhluta áttu Ármenningar tíu stiga sprett og breyttu þá stöðunni í 81-99. Þá má segja að björninn hafi verið unninn hjá gestunum og Selfoss átti engin svör á lokakaflanum.

Follie Bogan var stiga- og framlagshæstur Selfyssinga með 24 stig og 6 fráköst og Vojtéch Novák var sömuleiðis öflugur með 12 stig og 11 fráköst.

Liðin mætast næst í Laugardalshöllinni á föstudaginn og þar þurfa Selfyssingar sigur til þess að halda lífi í einvíginu.

Selfoss-Ármann 91-110 (23-31, 26-26, 27-29, 15-24)
Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 24/6 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 13/4 fráköst, Vojtéch Novák 12/11 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 11/6 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 10, Tristan Máni Morthens 9, Gísli Steinn Hjaltason 5/4 fráköst, Fróði Larsen Bentsson 4, Birkir Máni Sigurðarson 3.

Fyrri greinBanaslys við Holtsós
Næsta greinSelfoss tryggði sér sigur í riðlinum