Selfyssingar náðu í sín fyrstu stig

Gunnar Flosi og Ísak voru sáttir í leikslok. Ljósmynd/Selfoss handbolti

Ungmennalið Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Grill 66 deild karla í handbolta í dag þegar liðið heimsótti ungmennalið Fram í Safamýrina.

Selfyssingar byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótlega fimm marka forystu en Fram náði að saxa á forskotið fyrir leikhlé og staðan var 13-16 í hálfleik.

Fram jafnaði 20-20 snemma í seinni hálfleik en Selfyssingar voru sterkari á lokakaflanum og náðu að lokum fjögurra marka sigri, 27-31.

Tryggvi Þórisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 7, Ísak Gústafsson 5, Gunnar Flosi Grétarsson og Andri Dagur Ófeigsson 4 og Arnór Logi Hákonarson 3.

Alexander Hrafnkelsson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu.

Fyrri greinKrefst þess að ríkisstjórnin dreifi byrðunum
Næsta greinSýndu stuðning við Black Lives Matter á Selfossvelli