Selfyssingar fengu háðulega útreið þegar þeir tóku á móti Víkingi í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Gestirnir sigruðu með þrettán marka mun, 15-33.
Fyrirfram var búist við hörku leik en Selfoss vann síðustu viðureign liðanna með tveggja marka mun. Sú varð ekki raunin í kvöld. Eftir rólega byrjun þar sem jafnt var á flestum tölum skoruðu Víkingar þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 7-10. Þeir bættu enn í forskotið á síðustu sex mínútum fyrri hálfleiks og staðan í leikhléinu var 9-15.
Víkingar völtuðu síðan yfir Selfyssinga í síðari hálfleik þar sem heimamenn skoruðu aðeins sex mörk gegn átján mörkum gestanna. Varnarleikur Selfyssinga var ekki upp á marga fiska í síðari hálfleik og sóknarleikurinn var skelfilegur stærstan hluta leiksins. Staðan var 15-20 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum en Víkingar tóku því rólega undir lokin og bættu við þremur mörkum.
Matthías Örn Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Einar Sverrisson skoraði 4, Hörður Bjarnarson 3 og þeir Gunnar Ingi Jónsson, Magnús Már Magnússon og Einar Pétur Pétursson skoruðu eitt mark hver.
Eini ljósi punkturinn í kvöld var frammistaða markmanna Selfoss sem vörðu samtals tuttugu skot fyrir aftan hripleka vörnina. Helgi Hlynsson varði 10 skot og var með 40% markvörslu og Sverrir Andrésson varði einnig 10 skot og var með 35,7% markvörslu.
Deildarkeppnin er nú komin í langt frí þannig að Selfyssingar hafa nægan tíma til að hugsa sinn gang. Næsti leikur liðsins er 1. febrúar 2013 gegn Fjölni á útivelli.