Íslandsmeistaramót yngri flokka í júdó fór fram síðastliðinn laugardag í aðstöðu Ármanns í Laugardal. Sjö félög sendu 56 keppendur á mótið og þar af voru tíu keppendur frá júdódeild Selfoss. Margir keppendur Selfoss voru að stíga sín fyrstu skref á þessu móti og var gaman að fylgjast með þeim.
Stymir Hjaltason glímdi hörku vel, hann tók sex glímur og tók silfur í -81 kg flokki U18 og varð í 4. sæti í U21.
Mikael Ólafsson var að keppa á sínu fyrsta Íslandsmóti og hreppti silfur eftir tvö flott köst í -73 kg flokki U15. Selfoss átti marga keppendur í U15 ára flokknum en Óðinn Ingason varð í 2. sæti í -42, Gestur Maríuson í 3. sæti -55 og Sveinbjörn Ólafsson í 5.sæti -55.
Jónas Gíslason varð í 3. sæti í -46 kg flokki U13 og Alexander Sófusson í 3. sæti í -73 kg flokki U18. Í -90 kg flokki U21 voru bræður saman á verðlaunapalli en Böðvar Arnarsson varð í 2. sæti og Arnar Arnarsson í 3. sæti. Þá varð Vignir Stefánsson í 3. sæti í -81 kg flokki U21.
Þjálfarar Selfoss á mótinu voru þeir Egill Blöndal og Úlfur Böðvarsson en deildin sendi einnig Breka Bernharðsson á mótið sem dómara.

