Íslandsmeistarar Selfoss flugu inn í 8-liða úrslit bikarkeppninnar í handbolta í kvöld með stórsigri á Þór Akureyri á útivelli, 26-39.
Þórsarar eru taplausir í toppsæti Grill 66 deildarinnar og áhugavert að sjá muninn á liðunum.
Selfoss hafði örugg tök á leiknum frá upphafi en í stöðunni 6-9 snemma leiks misstu Þórsarar einn lykilmanna sinn af velli með rautt spjald eftir að hann setti vítaskot í andlitið á Einari Baldvini Baldvinssyni, markverði Selfoss. Strax í kjölfarið náði Selfoss tíu marka forskoti, 7-17, en staðan var 9-20 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn varð aldrei mjög skemmtilegur. Selfoss leiddi 16-30 um hann miðjan en þá tóku Þórsarar við sér og náðu að minnka muninn niður í tíu mörk, 22-32. Íslandsmeistararnir stigu þá á bensíngjöfina og náðu aftur fjórtán marka forskoti, 23-37, en lokatölur urðu sem fyrr segir 26-39.
Hergeir með 100% skotnýtingu
Hergeir Grímsson átti frábæran leik fyrir Selfoss, skoraði 10/4 mörk úr 10 skotum. Ísak Gústafsson skoraði 6 mörk og Haukur Þrastarson 4 en Haukur var líka duglegur að finna samherja og átti 7 stoðsendingar. Ari Sverrir Magnússon skoraði 4/2, Atli Ævar Ingólfsson, Alexander Egan og Daníel Karl Gunnarsson 3, Guðni Ingvarsson og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Reynir Freyr Sveinsson og Magnús Øder Einarsson skoruðu sitt markið hvor. Tryggvi Þórisson var sterkur í vörninni með 8 brotin fríköst og 3 stolna bolta.
Einar Baldvin varði 12/1 skot í marki Selfoss og var með 46% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 4 skot og var með 25% markvörslu.