Lið Selfoss er komið í átta liða úrslit bikarkeppni kvenna í handbolta eftir góðan sigur á FH á útivelli í kvöld, 24-28.
Leikurinn var jafn framan af en þegar leið á fyrri hálfleikinn náði Selfoss góðu forskoti og leiddi með fimm mörkum í leikhléi, 11-16.
Selfoss virtist vera með örugg tök á leiknum en um miðjan síðari hálfleikinn kom slæmur kafli þar sem FH skoraði fjögur mörk í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 21-22. Selfyssingar ráku af sér slyðruorðið undir lokin og náðu aftur öruggu forskoti sem þær héldu til leiksloka.
Hrafnhildur Hanna Þrastadóttir var markahæst Selfyssinga með átta mörk en Carmen Palamariu kom næst henni með sjö mörk.