Selfyssingar saltaðir í Vestmannaeyjum

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 6 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti ÍBV til Vestmannaeyja í Olísdeild karla í handbolta í dag. Eyjamenn reyndust sterkari og unnu öruggan sigur, 32-25.

Eyjamenn höfðu frumkvæðið framan af fyrri hálfleiknum og náðu mest fjögurra marka forskoti, 13-9, þegar rúmar 20 mínútur voru liðnar. Selfyssingar svöruðu hins vegar fyrir sig á lokakafla fyrri hálfleiks og náðu að minnka muninn í eitt mark fyrir leikhlé, 15-14.

Jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfleiknum en svo hertu Eyjamenn tökin og náðu fimm marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn, 22-17. Selfoss minnkaði muninn fljótlega í tvö mörk en á síðustu tíu mínútunum voru Eyjamenn miklu sterkari, þeir söltuðu Selfyssinga ofan í tunnu og unnu öruggan sjö marka sigur.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 9/6 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 6, Árni Steinn Steinþórsson 3, Hergeir Grímsson og Tryggvi Þórisson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Karolis Stropus og Richard Sæþór Sigurðsson skoruðu allir 1 mark hvor. Vilius Rasimas og Sölvi Ólafsson vörðu báðir 6 skot í leiknum.

Selfoss er áfram í 8. sæti deildarinnar með 6 stig en ÍBV fór með sigrinum upp í 4. sætið og er með 12 stig.

Fyrri greinFótbrotnaði við Geysi
Næsta greinHrunamenn réðu ekki við Hött