„Það var ótrúlega gaman að spila með honum. Við höfum ekki spilað saman síðan 2012 á Selfossi," sagði Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, eftir sigurleik Íslands gegn Grikklandi á útivelli í kvöld.
Ísland sigraði 2-3 eftir að hafa lent 2-0 undir í leiknum.
Þau fáheyrðu tíðindi gerðust í leiknum að framlína íslenska byrjunarliðsins var skipuð tveimur Selfyssingum. Jón Daði og Viðar Örn Kjartansson voru í fremstu víglínu, en hvorugum tókst reyndar að komast á blað í leiknum. Viðari var skipt útaf á 61. mínútu en Jóni Daða á 82. mínútu. Þeir fengu báðir marktækifæri í leiknum, en Jón Daði fékk meðal annars dauðafæri í seinni hálfleik.
„Þetta var hræðilega lélegt. Ég hafði miklu meiri tíma en ég hélt og ætlaði að leggja hann í hornið en hitti svo ekki boltann. Stundum á maður svona daga, þar sem maður nær ekki að setja boltann í netið. Maður þarf að gleyma því bara og koma sterkari til baka,“ sagði Jón Daði í samtali við fotbolti.net eftir leik.