Tveir Selfyssingar fengu rauð spjöld þegar Selfoss tapaði mætti Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Níu gegn ellefu tókst Selfyssingum ekki að halda hreinu og Fylkir sigraði 2-0.
Bæði lið fengu ágæt færi á fyrsta korterinu, Viðar Kjartansson og Jón Daði Böðvarsson áttu báðir ágætar marktilraunir en inn fór boltinn ekki. Á 25. mínútu missti Robert Sandnes fótanna á vellinum og straujaði í leiðinni leikmann Fylkis. Slakur dómari leiksins reif upp rauða spjaldið og sendi Sandnes í sturtu. Eftir spjaldið voru Fylkismenn meira með boltann en náðu ekki að skapa sér færi og staðan var 0-0 í hálfleik.
Eftir átta mínútna leik í síðari hálfleik fékk Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfoss, beint rautt spjald fyrir að brjóta sókn Fylkis á bak aftur með kröftugri rennitæklingu. Ásetningur Stefáns var ekki annar en að ná í boltann, og var hann hársbreidd frá því, en dómarinn stakk höndinni beint í rassvasann og reif upp rauða spjaldið.
Fjórum mínútum síðar var Viðar við það að sleppa innfyrir þegar brotið var á honum. Í stað þess að beita hagnaði, flautaði dómarinn og tók þannig færið af Viðari.
Tveimur fleiri náðu Fylkismenn loksins að brjóta vörn Selfoss á bak aftur með marki Magnúsar Matthíassonar á 60. mínútu. Selfyssingar buguðust ekki heldur héldu áfram og á 66. mínútu lét Viðar Örn verja frá sér í ágætu færi. Ismet Duracak varði svo vel í marki Selfoss fimm mínútum síðar, skalla af stuttu færi. Leikurinn hélt áfram og fyrirgjöf frá hægri barst inn í teig Selfoss með viðkomu í varnarmanni þar sem Björgólfur Takefusa skallaði í þverslána og niður og að því er virtist yfir marklínuna.
Viðar Örn hélt áfram að vera í færunum og á 83. mínútu komst hann í fínt skotfæri en skaut hátt og langt framhjá markinu. Kostulegt atvik sást tveimur mínútum síðar þegar markvörður Fylkis fékk gult spjald fyrir að tefja, manni fleiri og tveimur mörkum yfir.
Fleira gerðist ekki í leiknum og Fylkismenn fögnuðu sigri.
Spjöldin í leiknum gætu reynst Selfyssingum dýr í lokabaráttunni. Sandnes verður í leikbanni í leiknum gegn Keflavík á fimmtudaginn og Stefán Ragnar fær tveggja leikja bann og missir því bæði af leiknum gegn Keflavík og einnig leiknum gegn Stjörnunni á sunnudaginn. Endre Brenne verður einnig í leikbanni gegn Stjörnunni en hann fékk sitt sjöunda gula spjald í sumar í leiknum gegn Fylki í kvöld.