Selfyssingar jöfnuðu ÍBV að stigum með því að sigra í innbyrðis leik liðanna í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Liðin mættust í Eyjum þar sem Selfyssingar sigldu burt með tvö stig í farteskinu.
Lokatölur í kvöld voru 21-23. Þar með eru liðin nú jöfn að stigum með 16 stig í 4. og 5. sætinu.
Selfyssingar hafa aðeins tapað einum leik eftir áramót og eru nú komnir af alvöru í slaginn um sæti í umspili um úrvalsdeildarsæti. Fjórða sætið gefur umspilsrétt þar sem leikið er gegn næstneðsta liði úrvalsdeildar í undanúrslitum.
Matthías Halldórsson var atkvæðamestur Selfyssinga í kvöld með 10 mörk. Guðni Ingvarsson skoraði 5, Atli Kristinsson 3, Ómar Helgason 2 og þeir Gunnar Ingi Jónsson, Sigurður Már Guðmundsson og Hörður Bjarnarson skoruðu allir eitt mark. Helgi Hlynsson átti fínan leik í markinu og varði 24/1 skot.
Þrjár umferðir eru eftir af deildinni og Selfyssingar eiga eftir að mæta tveimur efstu liðunum auk botnliði Fjölnis þannig að róðurinn verður erfiður á lokasprettinum. Eyjamenn eiga eftir að mæta Víkingi, Stjörnunni og Fjölni.