Selfyssingar náðu glæsilegum árangri á USA Cup, árlegu knattspyrnumóti sem fer fram í Blaine í úthverfi Minneapolis, og lauk um síðustu helgi.
Selfoss sendi tvö lið til leiks í 3. flokki karla. U15 ára liðið, drengir fæddir 2004, náðu glæsilegum árangri og sigraði á mótinu. Liðið lék sex leiki og sigraði í þeim öllum og fékk aðeins á sig tvö mörk á mótinu.
Úrslitaleikurinn var gegn heimaliðinu í Minnesota Rush og sigraði Selfoss 2-1. Sindri Þór Arnarson kom Selfyssingum yfir í leiknum og staðan var 1-0 í hálfleik en Rush-liðar jöfnuðu í upphafi síðari hálfleiks.
Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, gerði þá þrefalda skiptingu og í næstu sókn stormuðu þeir Tryggvi Freyr Magnússon og Steinar Benoný Gunnbjörnsson upp kantinn með góðu þríhyrnings spili sem lauk með þrumuskoti Steinars á nærstöngina og boltinn söng í netinu. Selfoss hafði góð tök á leiknum á lokakaflanum og sigldi sigrinum í örugga höfn.
Eldra lið Selfoss, U16, stóð sig einnig vel á mótinu, komst í undanúrslit þar sem liðið tapaði 0-2 í hörkuleik og endaði í 3.-4. sæti.
Selfyssingarnir eru komnir heim og fengu að sjálfsögðu góða móttökur fjölskyldna sinna þegar þeir komu með bikarinn yfir brúnna í gærmorgun.
Keppendur á USA Cup eru 16.000 á aldrinum 9-19 ára en um 1.300 lið taka þátt í mótinu. Keppt er á 66 völlum í National Sports Center í Blaine úthverfi Minneapolis.