Selfyssingar sigruðu í baráttunni um Suðurlandið

Dimitrije Cokic og Ívan Breki Sigurðsson stíga dans og ná hvorugur að hafa stjórn á boltanum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann mikilvægan sigur í hörkuleik gegn Ægi í Suðurlandsslag í 2. deild karla í knattspyrnu í Þorlákshöfn í kvöld.

Selfyssingar byrjuðu betur og höfðu fín tök á leiknum fyrsta hálftímann. Til tíðinda dró á 24. mínútu en eftir góðan sprett Gonzalo Zamorano upp vinstri kantinn fékk Breki Baxter boltann frá Aroni Lucas Vokes. Breki leitaði inn í vítateiginn vinstra megin og skaut lúmsku skoti framhjá Andra Þór Grétarssyni í marki Ægis og kom Selfyssingum í 0-1.

Átta mínútum síðar gerðu Selfyssingar annað áhlauð. Þá tók Alfredo Arguello sprettinn hægra meginn alveg inn í vítateig Ægis þar sem hann renndi boltanum á Aron Lucas á nærstönginni og Aron afgreiddi boltann í netið með mögnuðu skoti, 0-2.

Eftir annað mark Selfoss sóttu Ægismenn í sig veðrið og ógnuðu marki Selfoss af alvöru. Á 41. mínútu sendi Bjarki Rúnar Jónínuson boltann innfyrir á Toma Ouchagelov og hann afgreiddi hann strax fyrir markið á Brynjólf Þór Eyþórsson sem kom á ferðinni og skoraði.

Staðan var 1-2 í hálfleik og Selfyssingar virtust sáttir við þá stöðu því þeir lágu í skotgröfunum í seinni hálfleiknum. Ægismenn voru sterkari úti á vellinum og sköpuðu sér nokkur frábær færi en Robert Blakala, markvörður Selfoss, átti nokkrar mjög góðar vörslur og bjargaði stigunum þremur fyrir Selfoss.

Hvorugu liðinu tókst að skora í seinni hálfleiknum og 1-2 sigur skilar Selfyssingum í 25 stig í toppsætinu á meðan Ægismenn síga niður í 6. sætið með 15 stig.

Fyrri greinNýir eigendur að Samúelsson matbar
Næsta greinGjald­þrot Jötunn véla upp á 1,7 milljarða