Selfyssingar skelltu Íslandsmeisturunum

Einar Sverrisson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungt lið Selfoss gerði virkilega vel í kvöld þegar það skellti Íslandsmeisturum Vals í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Set-höllinni urðu 33-31.

Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörkin en Valur jafnaði 6-6. Þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra, þeir skelltu í lás í vörninni og náðu sjö marka forskoti. Sóknarleikur liðsins var vel smurður og staðan í hálfleik var 21-15.

Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn niður í tvö mörk en þá hrukku Selfyssingar aftur í gang, þeir byggðu hratt upp forskot aftur og unnu að lokum öruggan sigur, þó að dregið hafi saman með liðunum á lokakaflanum.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson, Ísak Gústafsson og Gunnar Kári Bragason skoruðu 4 mörk, Haukur Páll Hallgrímsson 3, Tryggvi Sigurberg Traustason og Hannes Höskuldsson 2 og þeir Ragnar Jóhannsson, Sölvi Svavarsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Karolis Stropus skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn Þorsteinsson nýtti tækifærið í markinu vel, varði 18/2 skot og var með 37% markvörslu.

Með sigrinum hoppaði Selfoss upp í 3. sæti deildarinnar, tímabundið í það minnsta en liðið er með 23 stig. Valsmenn eru með 33 stig á toppnum og búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.

Fyrri greinNaglbítur í Þorlákshöfn
Næsta greinÞyrla sótti slasaðan fjórhjólamann