Selfyssingar skoða Suður-Afrískan leikmann

Knattspyrnudeild Umf. Selfoss er enn að vinna í leikmannamálum fyrir komandi sumar í Pepsi-deild karla en þessa dagana er Clive Moyo-Modise til reynslu hjá félaginu.

Þetta kemur fram á stuðningsmannasíðu Selfoss. Moyo-Modise er 27 ára gamall miðju- og sóknarmaður, fæddur í London, en foreldar hans eru frá Suður-Afríku. Hann hefur leikið með U23 ára liði Suður-Afríku auk þess að hafa æft með A-landsliði þjóðarinnar.

Moyo-Modise hóf feril sinn hjá Rochdale og vakti þá meðal annars áhuga forráðamanna Liverpool og Bolton. Árið 2007 hóf hann að leika með félagsliðinu Bidvest Wits í Suður-Afríku en hélt svo aftur til Englands og hefur leikið þar með neðrideildarliðum.

Hann mun æfa með Selfyssingum í vikunni og leika æfingaleik gegn Keflavík, en sá leikur verður leikinn í Reykjaneshöllinni á laugardaginn, 11. febrúar kl. 13.

Fyrri greinBrúa bilið með yfirdrætti
Næsta greinÓveður undir Eyjafjöllum