Selfyssingar slegnir út af laginu í upphafi

Nacho Gil brýtur á Danijel Majkic og uppsker gult spjald. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar fengu skell gegn Vestra þegar þeir hófu leik í 1. deild karla í knattspyrnu á gervigrasinu á Selfossi í dag.

Strax á 3. mínútu leiksins fengu Vestramenn vítaspyrnu sem Stefán Þór Ágústsson var grátlega nálægt því að verja en boltinn snerist yfir marklínuna. Vestri hélt áfram að sækja og bætti við öðru marki á 19. mínútu og einni mínútu síðar misstu Selfyssingar boltann klaufalega á miðjunni og Vestramenn geystust fram og refsuðu með þriðja markinu.

Eftir þriðja markið sóttu Selfyssingar í sig veðrið en gekk illa að skapa færi. Staðan var 0-3 í hálfleik og þær urðu reyndar lokatölur leiksins því seinni hálfleikurinn var jafn og tíðindalítill.

Selfyssingar sitja því á botni 1. deildarinnar að lokinni fyrstu umferðinni og mæta næst hinum nýliðunum, Kórdrengjum, á útivelli næstkomandi föstudag. Kórdrengir gerðu 1-1 jafntefli við Aftureldingu í dag.

Fyrri greinTækjageymsla eyðilagðist í eldsvoða
Næsta greinÆgir byrjar á sigri