Eftir frábæran sigurleik í bikarkeppninni á mánudagskvöld var Selfyssingum skellt harkalega niður á jörðina í kvöld þegar liðið heimsótti Stjörnuna í 1. deild karla í handbolta. Garðbæingar unnu ellefu marka sigur, 31-20.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik. Stjarnan byrjaði betur í leiknum en Selfoss komst yfir, 6-7, og eftir tuttugu mínútna leik var staðan 10-10. Stjörnumenn náðu tveggja marka forystu í kjölfarið sem þeir héldu fram að leikhléi, 15-13.
Stjarnan hélt forskotinu fyrstu fimm mínúturnar en eftir það hrundi vörnin og markvarslan hjá Selfossi og heimamenn náðu að auka forskotið í stórum skrefum. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var staðan 27-19 og Selfyssingar alveg hættir. Stjarnan náði 4-1 kafla á síðustu fimm mínútunum og juku muninn í ellefu mörk.
Selfyssingar spiluðu fínan handbolta í fyrri hálfleik og Einar Sverrisson átti stórleik á fyrstu þrjátíu mínútunum og skoraði sjö mörk. Í síðari hálfleik endaði andleysi liðsins í algjörri uppgjöf.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Matthías Örn Halldórsson skoraði 4, Ómar Helgason 2 og þeir Einar Pétur Pétursson, Hörður Bjarnarson, Jóhann Gunnarsson og Jóhann Erlingsson skoruðu allir eitt mark.
Helgi Hlynsson varði 21 skot í marki Selfoss og var með 47,7% markvörslu. Sverrir Andrésson varði eitt skot og var með 11% markvörslu.