Selfyssingar sterkir á lokakaflanum

Hannes Höskuldsson skoraði 9 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Val-2 í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Góður lokakafli Selfyssinga tryggði þeim 35-39 sigur.

Leikurinn var í járnum framan af, liðin skiptust á um að hafa forystuna en Valsmenn voru sterkari á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléi, 19-17.

Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik en þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af honum komu Selfyssingar til baka og jöfnuðu 26-26. Þeir vínrauðu komust yfir í kjölfarið og litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það. Þeir náðu mest sjö marka forskoti á lokakaflanum og unnu að lokum öruggan sigur.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Árni Ísleifsson skoraði 5, Jónas Karl Gunnlaugsson, Jason Dagur Þórisson og Anton Breki Hjaltason 4, Guðjón Baldur Ómarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Valdimar Örn Ingvarsson og Hákon Garri Gestsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Sölvi Svavarsson og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 9 skot í marki Selfoss og Ísak Kristinn Jónsson 1.

Þegar ein umferð er eftir er Selfoss í 2. sæti deildarinnar með 25 stig, einu stigi á eftir Þór Ak. Selfoss mætir Fram 2 í lokaumferðinni en Þór mætir HK 2.

Fyrri greinJafntefli í Suðurlandsslag
Næsta greinTvíburarnir afgreiddu Elliða