Selfoss fékk skell þegar liðið fékk Hauka í heimsókn í úrvalsdeild karla í handbolta í dag. Lokatölur urðu 24-35.
Ríkjandi Íslandsmeistarar Selfoss voru lengi að komast inn í leikinn og stöldruðu reyndar stutt við. Haukar komust í 0-3 en Selfoss skoraði sitt fyrsta mark á níundu mínútu leiksins. Selfoss jafnaði 3-3 og jafnt var á öllum tölum upp í 6-6 en þá stungu Haukarnir af.
Staðan var 9-16 í hálfleik og í seinni hálfleik var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Haukar voru komnir með tíu marka forskot þegar korter var eftir og Selfyssingar strönduðu aftur og aftur á þéttri og hreyfanlegri vörn Haukanna.
Selfoss er nú í 6. sæti deildarinnar með 24 stig en það mun ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni á fimmtudaginn. Eins og staðan er í dag munar tveimur stigum á liðinu í 3. sæti og 8. sæti deildarinnar en átta efstu liðin fara í úrslitakeppnina.
Atli Ævar Ingólfsson og Einar Sverrisson voru markahæstir Selfyssinga með 4 mörk en Einar skoraði 2 af vítalínunni. Ísak Gústafsson, Tryggvi Þórisson og Ragnar Jóhannsson skoruðu allir 3 mörk, Hergeir Grímsson, Alexander Már Egan og Hans Jörgen Ólafsson skoruðu allir 2 mörk, en Hans Jörgen, sem er 17 ára gamall var að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. Nökkvi Dan Elliðason skoraði 1 mark.
Vilius Rasimas varði 8 skot í marki Selfoss, þar af 7 í fyrri hálfleik. Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot.