Selfyssingar þrautgóðir í lokin

Gerald Robinson skoraði 33 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann mikilvægan sigur á Skallagrími í 1. deild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Gjánni á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar voru frábærir í upphafi leiks og þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af 2. leikhluta var staðan orðin 39-18. Þá tók við lélegur kafli þar sem Selfyssingum gekk ekkert að skora og Skallagrímur minnkaði muninn í 45-39 fyrir leikhlé.

Selfoss var skrefinu á undan framan af 3. leikhluta en undir lok hans gerði Skallagrímur 14-3 áhlaup og breytti stöðunni í 65-65 og þannig stóðu leikar þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Leikurinn var í járnum í 4. leikhluta og liðin skiptust á um að halda forystunni. Selfyssingar voru hins vegar þrautgóðir á lokakaflanum, skoruðu síðustu fimm stig leiksins og tryggðu sér 85-79 sigur.

Trevon Evans var stigahæstur Selfyssinga í kvöld með 32 stig og 8 stoðsendingar. Gerald Robinson var sömuleiðis sterkur en hann skoraði 25 stig og tók 16 fráköst.

Selfyssingar eru nú í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Skallagrímur er í 7. sæti með 8 stig.

Tölfræði Selfoss: Trevon Lawayne Evans 32/7 fráköst/8 stoðsendingar, Gerald Robinson 25/16 fráköst, Vito Smojver 24, Gasper Rojko 4/7 fráköst/5 stoðsendingar, Birkir Hrafn Eyþórsson 0, Styrmir Jónasson 0, Ísar Freyr Jónasson 0, Arnar Geir Líndal 0, Sigmar Jóhann Bjarnason 0/4 fráköst, Gunnar Guðmundsson 0.

Fyrri greinLeikur Stjörnunnar-U og Selfoss verður endurtekinn
Næsta greinSif til liðs við Selfoss