Selfyssingar til í slaginn í Tékklandi

Selfossliðið í hádegismat í Hranice í gær. Ljósmynd/Selfoss Handbolti

Selfoss mætir tékkneska liðinu KH Kopřivnice tvívegis um helgina í fyrstu umferð Evrópubikars karla í handbolta.

Fyrri leikurinn fer fram á morgun kl. 13:00 að íslenskum tíma og seinni leikurinn kl. 16:00 á sunnudag.

Selfyssingar flugu til Póllands á þriðjudag og ferðuðust þaðan til Tékklands en Kopřivnice er 22 þúsund manna bær skammt sunnan við landamæri Póllands og Tékklands.

Í gær kom Selfossliðið á áfangastað í Hranice, skammt austan við Kopřivnice, þar sem tekin var æfing í gærmorgun og eftir hádegismat var frekari undirbúningur en leikmenn tóku stærstan hluta dagsins rólega.

Að sögn heimildarmanna sunnlenska.is í Tékklandi er stemningin góð í íslenska hópnum og menn gífurlega spenntir að fá að hefja leik. Æfingar hafa gengið vonum framar og líta Selfyssingarnir vel út innan vallar sem utan.

Leikirnir verða í beinni netlýsingu á heimasíðu Evrópska handknattleikssambandsins og má finna tengil á fyrri leikinn hér.

Fyrri greinLoftgæðamælar settir upp á Selfossi vegna eldgossins
Næsta greinBassi mætir með nikkuna í Reykjadal