Selfyssingar tóku Valsmenn til bæna

Hergeir Grímsson skoraði 4 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sterkan sigur á Val í Olísdeild karla í handbolta í dag, 26-28, að Hlíðarenda.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, liðin skiptust á um að hafa frumkvæðið og munurinn varð aldrei mikill. Selfoss leiddi 12-14 í hálfleik.

Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik, Valur náði að jafna metin um miðjan hálfleikinn en þeir vínrauðu svöruðu af krafti og náðu mest fjögurra marka forystu, 20-24. Valsmenn þjörmuðu að Selfyssingum undir lokin en Selfossvörnin hélt og Sunnlendingar fögnuðu góðum sigri.

Selfyssingar eru nú komnir upp í 6. sæti deildarinnar með 12 stig en Valur er í 4. sætinu með 14 stig.

Alexander Egan var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk úr 6 skotum, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 5, Hergeir Grímsson og Ísak Gústafsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 3/1, Einar Sverrisson 3 og þeir Karolis Stropus, Elvar Elí Hallgrímsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu 1 mark hver.Vilius Rasimas varði 15/1 skot í marki Selfoss og var með 37% markvörslu.

Fyrri grein„Skemmtilegt að búa til verk sem túlka kulda“
Næsta greinHlaupið líklega náð hámarki í dag