Selfyssingar töpuðu á Ásvöllum

Selfoss tapaði 31-25 fyrir Íslands- og bikarmeisturum Hauka í N1 deild karla í handbolta í dag þegar liðin mættust á Ásvöllum.

Leikurinn var jafn framan af en Haukar komust fimm mörkum framúr á lokamínútum fyrri hálfleiks og breyttu þá stöðunni úr 10-10 í 16-11.

Haukar leiddu síðan allan seinni hálfleik þó að Selfyssingar hafi fylgt þeim eftir eins og skugginn. Þegar rúmar 20 mínútur voru eftir fékk Atli Kristinsson rauða spjaldið hjá Selfyssingum eftir að hafa brotið á fyrrum félaga sínum, Guðmundi Árna Ólafssyni.

Selfyssingar létu þó brotthvarf Atla mikið á sig fá en munurinn hélst sá sami til leiksloka.

Ragnar Jóhannsson var að vanda markahæstur Selfyssinga með 6 mörk. Guðjón Drengsson og Helgi Héðinsson skoruðu 4, Einar Héðinsson og Gunnar Jónsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 2 og þeir Atli Kristinsson, GUðni Ingvason og Eyþór Lárusson skoruðu allir 1 mark.

Guðmundur Árni Ólafsson skoraði 6 mörk fyrir Hauka.

Fyrri greinGunnar sýnir þúfur í Miðgarði
Næsta greinSungið til styrktar munaðarlausum börnum