Selfyssingar töpuðu fyrir Valsmönnum, 3-1, í toppslag Pepsi-deildar karla á Hlíðarenda í kvöld.
Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Selfyssinga því Valsmenn komust yfir strax á 2. mínútu leiksins eftir sofandahátt í vörn Selfoss.
Valsmenn voru ákveðnari í upphafi en á 22. mínútu fengu Selfyssingar dauðafæri þegar Stefán Ragnar Guðlaugsson skallaði boltann rétt framhjá eftir aukaspyrnu Jóns Royrane.
Eftir þetta voru Selfyssingar meira með boltann án þess að skapa færi en Valur átti hættuleg færi undir lok hálfleiksins. Ismet Duracak gerði vel í síðasta færi fyrri hálfleiks þegar hann varði naumlega skot eftir aukaspyrnu heimamanna.
Selfyssingar jöfnuðu leikinn þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Jón Royrane fékk boltann utarlega í vítateig Vals, tók hann á lofti og kláraði glæsilega með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.
Eftir þetta voru Selfyssingar sterkari en fátt var tíðinda allt þar til á 78. mínútu að Valsmenn komust yfir, nokkuð gegn gangi leiksins. Markið var af ódýrari gerðinni en skot Valsmanns fór í varnarmann og endaði í markhorninu.
Fjórum mínútum síðar átti Jón Daði Böðvarsson frábæran sprett þegar hann lék á varnarmenn Vals og þrumaði boltanum í þverslána. Selfyssingar reyndu allt hvað af tók að jafna og áttu nokkrar frábærar tilraunir en fengu aftur mark í bakið úr skyndisókn Vals á 86. mínútu.
Eftir þetta vörðu Valsmenn forskot sitt og leikurinn fjaraði út. Heilt yfir var leikurinn jafn en Valsmenn nýttu sín færi mun betur en Selfyssingar, sem áttu að gera betur í sókninni.