Selfoss tapaði öðrum leiknum í röð í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnesið. Lokatölur urðu 27-24, heimamönnum í vil.
Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum og leiddu 6-8 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Grótta jafnaði 8-8 og eftir það var jafnt á öllum tölum fram að leikhléi. Selfoss skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan var 11-12 í hálfleik.
Grótta skoraði tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleik og náði í kjölfarið tveggja marka forskoti. Selfoss jafnaði 16-16 um miðjan seinni hálfleikinn og þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum komust Selfyssingar yfir aftur, 20-21. Þá skoraði Grótta þrjú mörk í röð og við tóku spennandi mínútur.
Munurinn var eitt mark, 24-23 þegar þrjár mínútur voru eftir en Grótta gaf ekki forskotið eftir heldur bætti í og munurinn varð að lokum þrjú mörk, 27-24.
Sverrir Pálsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk og Hörður Másson skoraði 4. Andri Már Sveinsson skoraði 3, Árni Geir Hilmarsson og Egidijus Mikalonis 2 og þeir Guðjón Ágústsson, Gunnar Ingi Jónsson, Jóhann Erlingsson og Matthías Örn Halldórsson skoruðu allir 1 mark.
Sebastian Alexandersson varði 16 skot í marki Selfoss og Sverrir Andrésson 2.
Nú þurfa þeir vínrauðu að girða sig í brók og mæta tvíefldir í næsta leik, þegar Arnar Gunnarsson mætir með topplið Fjölnis á Selfoss næstkomandi föstudag.