Selfyssingar tylltu sér á toppinn

Selfyssingar fagna marki Brennu Lovera gegn Keflavík í 1. umferðinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar tylltu sér á topp úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu í kvöld með góðum útisigri gegn Þór/KA í Boganum á Akureyri.

Leikurinn var jafn í upphafi en Selfyssingar voru hættulegri fram á við og á 19. mínútu kom Brenna Lovera þeim yfir. Hún fékk sendingu innfyrir, steig út varnarmann Þórs/KA og lék svo lystilega á markvörð og tvo aðra varnarmenn Þórs/KA. Þór/KA fékk dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks en fleiri urðu mörkin ekki fyrstu 45 mínúturnar og staðan var 0-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri, barátta úti á vellinum og bæði lið með ágæt tilþrif en Selfyssingar áfram meira ógnandi fram á við. Það var hins vegar ekki mikið að gerast í leiknum þegar Caity Heap þrumaði boltanum í netið af löngu færi á 66. mínútu. Glæsilegt skot og boltinn smaug undir þverslána á marki Þórs/KA, 0-2.

Leikurinn fjaraði út síðustu tuttugu mínúturnar, Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum og vörðust skipulega en Þór/KA ógnaði reyndar lítið. Lokatölur 0-2.

Að loknum tveimur umferðum eru Selfyssingar í efsta sæti deildarinnar með 6 stig og mæta næst Stjörnunni á heimavelli næstkomandi laugardag.

Fyrri grein1,6 milljarður króna í uppbyggingu og endurnýjun á Litla Hrauni
Næsta greinSlasaðist í Skeggjadal