Selfyssingar yfirspilaðir í Grafarvoginum

Lið Selfoss átti sér ekki viðreisnar von þegar það mætti Fjölni á útivelli í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Heimamenn unnu öruggan sigur, 25-18.

Fjölnir tók leikinn í sínar hendur strax á fyrstu mínútu og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan orðin 9-4. Fjölnir jók muninn í sex mörk fyrir hálfleik, 15-9.

Seinni hálfleikur var jafnari en Selfyssingar voru aldrei nálægt því að koma sér inn í leikinn. Fjölnir hafði átta marka forskot þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum, 23-15, en Selfyssingar náðu sér ekki á flug í sókninni og þjörmuðu ekki að Fjölni á lokakaflanum.

Hörður Másson og Sverrir Pálsson voru markahæstir hjá Selfyssingum með 4 mörk, Daníel Róbertsson skoraði 3 og þeir Hergeir Grímsson, Elvar Jónsson, Egidijus Mikalonis, Andri Sveinsson, Matthías Halldórsson og Jóhann Erlingsson skoruðu allir eitt mark hver.

Sebestian Alexandersson varði 13 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 5.

Fyrri greinLýst eftir Einari Má
Næsta greinFSu gaf eftir í lokin