Selfyssingum leist ekki á blikuna

Haley Johnson, nýr framherji Selfyssinga, sækir að marki Blika í kvöld. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss heimsótti Breiðablik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda stigatöflunnar og það kom berlega í ljós í leiknum í kvöld.

Breiðablik byrjaði leikinn á mikilli pressu sem skilaði marki strax eftir tíu mínútur. Leikurinn róaðist nokkuð eftir það en Breiðablik hafði algjöra yfirburði og Selfyssingum tókst ekki að skapa sér færi. Einu tilraunir Selfyssinga í öllum leiknum voru þrjú langskot, auk þess sem liðið fékk þrjár hornspyrnur.

Undir lok fyrri hálfleiks skoruðu Blikar tvívegis, úr fyrirgjöf utan af kanti og beint úr hornspyrnu og staðan var 3-0 í hálfleik. Stuðningsmönnum Selfoss leist hreint ekki á blikuna eftir stífa sókn Breiðabliks en seinni hálfleikurinn var þó aðeins rólegri, þó að mörk heimakvenna hefðu getað orðið mun fleiri. Fjórða og síðasta markið leit dagsins ljós strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks og þar við sat, lokatölur 4-0.

Selfoss er áfram í harðri fallbaráttu með 10 stig og á fyrir höndum mikilvægan leik á útivelli gegn Tindastóli strax eftir helgi, á þriðjudag. Tindastóll er í 7. sæti með 14 stig.

Fyrri greinAukið eftirlit með umferðinni um helgina
Næsta greinBergrós rústaði síðustu greininni og tryggði sér 3. sætið