Selfyssingar verða í bullandi fallbaráttu í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í sumar ef eitthvað verður að marka spár fyrirliða og þjálfara liðanna í deildinni.
Fótbolti.net fékk alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Selfyssingum er spáð 10. sæti með 71 stig, en þar fyrir neðan, í fallsætunum, eru Fjarðabyggð með 42 stig og Huginn með 41 stig.
Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, segir að spáin komi ekki á óvart. „Nei ég get ekki sagt það, við vorum í þessum pakka í fyrra, í fallbaráttu og liðið hefur ekki verið stöðugt síðustu ár,“ sagði Gunnar í samtali við fotbolti.net en Selfyssingar óttast ekki að sogast í fallbaráttu líkt og í fyrra.
„Það hefur ekki komið til tals og held að menn séu ekki að óttast hluti sem skipta ekki neinu máli hér og nú. Við einbeitum okkur að öðrum hlutum, ég allavega nenni ekki og hef aldrei spáð þannig í hlutina. Er ekki mikið nær að vera spenntur fyrir því ef svo færi að við sogumst upp í toppbaráttu?“ spyr Gunnar.
Selfyssingar hefja leik í deildinni laugardaginn 7. maí kl. 16 á heimavelli, þegar nýliðar Leiknis F. koma í heimsókn.