Selfyssingar töpuðu 0-2 í kvöld þegar Víkingur frá Ólafsvík kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í 1. deild karla í knattspyrnu.
Selfyssingar voru líflegir fyrsta korterið og Magnús Ingi Einarsson fékk meðal annars dauðafæri eftir þunga sókn sem Arnar Darri í marki Víkings varði meistaralega.
Á 17. mínútu fengu gestirnir réttilega dæmda vítaspyrnu þegar Vignir Jóhannesson, markvörður Selfoss, braut á sóknarmanni gestanna og Eyþór Helgi Birgisson skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.
Eftir markið voru gestirnir allsráðandi á vellinum. Selfyssingum gekk illa að halda boltanum og sóknarleikur liðsins var algjörlega bitlaus. Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart því þeim vínrauðu hefur aðeins tekist að skora fjögur mörk á heimavelli í sumar. 0-1 í hálfleik.
Fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks voru algjörlega tíðindalausar en fyrstu alvarlegu marktilraun Selfoss í hálfleiknum átti Þorsteinn Daníel Þorsteinsson. Á 63. mínútu tók hann aukaspyrnu en skaut naumlega yfir. Mínútu síðar var boltinn í netinu hinu megin á vellinum. Þorsteinn Már Ragnarsson stakk þá Andy Pew af á sprettinum og kláraði færið vel framhjá Vigni í markinu.
Nýliðinn Ragnar Þór Gunnarsson kom inná í sóknina hjá Selfyssingum í síðari hálfleik og hann var nálægt því að skora á 69. mínútu þegar hann átti skalla í stöng eftir frábæra skallasendingu frá Inga Rafni Ingibergssyni. Þetta var það síðasta sem Selfyssingar höfðu fram að færa í leiknum en þeir áttu engar lausnir uppi í erminni gegn Víkingum sem voru þéttir fyrir bæði á miðju og í vörn.
Selfyssingar eru nú í 8. sæti 1. deildar með 15 stig, tveimur stigum frá fallsæti.