Sérstakt að lítill bær geti þróað svona marga frábæra handboltamenn

Christian Bonde Povlsen og Laurids Søgaard Petersen á æfingu hjá Selfyssingum í Hleðsluhöllinni. Ljósmynd/Einar Guðmundsson

Á dögunum komu tveir danskir meistaranemar í íþróttafræði við Syddansk Universitet í Odense í Danmörku í heimsókn á Selfoss og fylgdust með öllum æfingum handknattleiksdeildar Selfoss.

Þeir Christian Bonde Povlsen og Laurids Søgaard Petersen eru að skrifa meistararitgerð um það hvernig lítið bæjarfélag eins og Selfoss getur búið til svona marga handboltamenn sem ná langt á heimsvísu. Þeir hrifust mjög af starfinu á Selfossi og sérstaklega hvernig búið er að yngstu iðkendunum.

Janus Daði og Óðinn Þór nefndu Selfoss
„Við heilluðumst af því hvernig Ísland náði stöðugt frábærum árangri í mörgum íþróttum þrátt fyrir lítinn íbúafjölda. Við ákváðum að skoða handboltann sérstaklega og tókum viðtöl við Janus Daða Smárason og Óðinn Þór Ríkharðsson, sem eru atvinnumenn í Danmörku. Þeir nefndu báðir að Selfoss væri áhugavert félag og miðað við hvað þeir sögðu okkur þá fannst okkur sérstakt að svona lítill bær gæti þróað svona marga frábæra handboltamenn,“ sögðu þeir Christian og Laurids í samtali við sunnlenska.is.

Í framhaldinu settu þeir sig í samband við Einar Guðmundsson, handknattleiksþjálfara á Selfossi, sem var þeim innan handar með heimsóknina á Selfoss.

„Selfoss er mjög vingjarnlegt samfélag og fólk tók okkur mjög vel. Allir virtust hafa áhuga á því hvað við værum að gera og buðust til að hjálpa okkur við að komast í samband við þá sem við vildum. Allir þjálfararnir og sjálfboðaliðarnir hjá félaginu gerðu dvöl okkar á Selfossi mjög ánægjulega,“ bæta þeir félagarnir við.

Leiðin á toppinn er skýr
Þegar heim til Danmerkur var komið hófust þeir Christian og Laurids handa við það að skrifa verkefnið og þessa stundina eru þeir að greina þau gögn sem þeir söfnuðu með viðtölum og rannsóknum á Selfossi.

„Það sem vakti mesta athygli okkar eru fyrirmyndirnar og hversu mikil nánd er í félagsskapnum. Yngri iðkendur eru að æfa í sama húsi og meistaraflokksleikmenn og jafnvel landsliðsmenn. Sú staðreynd að ungir leikmenn geti séð leiðina á toppinn svona skýrt og æft í sama tækjasal og umhverfi og Haukur Þrastarson og Elvar Örn Jónsson er mikil hvatning fyrir þá. Þetta er einn af kostunum við það að búa í litlum bæ og það er eitthvað sem við erum að skoða nánar,“ segja þeir Christian og Laurids að lokum.

Fyrri greinHamar steinlá í bikarnum
Næsta greinSvakalegur dagur í Þorlákshöfn