Sesar skaut Selfyssingum í undanúrslitin

Sesar Örn Harðarson sækir að marki Hauka í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í undanúrslit neðrideildarbikars KSÍ í knattspyrnu, fotbolti.net bikarsins, eftir glæsilegan 3-2 sigur á Haukum í 8-liða úrslitum á Selfossvelli í kvöld.

Það skiptust á skin og skúrir bæði innan vallar og utan í kvöld en Selfyssingar voru heilt yfir sterkari í leiknum. Byrjunin var reyndar afleit því Haukar komust yfir eftir upphlaup upp hægri kantinn þegar 110 sekúndur voru liðnar af leiknum.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn höfðu Selfyssingar góð tök á leiknum en tókst ekki að skapa sé afgerandi færi. Haukar voru nær því að bæta við marki en staðan var 0-1 í hálfleik.

Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og strax á þriðju mínútu hans jafnaði Sesar Örn Harðarson metin þegar hann mætti á fjærstöng eftir fyrirgjöf vinstri bakvarðarins Alexanders Clive Vokes. Rúmum tíu mínútum síðar komust Selfyssingar svo yfir og uppskriftin var sú sama, fyrirgjöf frá vinstri frá Alexander og í þetta skiptið skallaði Sesar boltann í netið.

Á 74. mínútu virtist Gonzalo Zamorano hafa gert endanlega út um leikinn þegar hann slapp innfyrir og kom Selfyssingum í 3-1 með snyrtilegu skoti. Eftir markið færðist hins vegar værð yfir Selfyssinga, Haukar sóttu í sig veðrið og náðu að minnka muninn í 3-2 á 89. mínútu. Nær komust gestirnir hins vegar ekki og Selfoss fagnaði sigri.

Selfyssingar verða því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin á fimmtudaginn, ásamt KFA, Tindastól og Árbæ.

Fyrri greinSterkur grunur um falsboð
Næsta greinSökkva sér í þýska ’80s hljóðheiminn í nýju lagi