„Setjum stefnuna á að vinna allt sem er í boði“

Halldór Jóhann

Stórleikur umferðarinnar í Olís deild karla í handbolta fer fram á Ásvöllum annað kvöld þegar Haukar taka á móti Selfoss. Haukar sitja í toppsæti deildarinnar en Selfyssingar geta jafnað þá að stigum með sigri.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, settist niður með Arnari Helga í Selfoss hlaðvarpinu og ræddi við hann um stórleikinn.

„Við þurfum að spila góða vörn. Þeir eru með gríðarlegt vopnabúr og tvo leikmenn í nánast hverri stöðu, þeir eru með mjög jafna leikmenn. Þeir eru með fullt af leikmönnum á bekknum sem geta komið inn og breytt leikjum. Við þurfum að vera skynsamir, tapa ekki boltanum og fá ekki mikið af hraðaupphlaupum á okkur,“ segir Halldór.

Ansi blóðugt að hafa enga áhorfendur
Hann segir sorglegt að áhorfendur geti ekki verið viðstaddir þennan stórleik.

„Undir eðlilegum kringumstæðum væri fullt af Selfyssingum að koma á leikinn. Manni finnst það ansi blóðugt að við getum ekki haft að minnsta kosti 200 manns í hólfi í svona stóru húsi eins og á Ásvöllum. Mér finnst þetta með ólíkindum en vonandi fáum við eitthvað út úr næstu tilslökunum.“

Með augun á öllum titlum
Halldór segir að markmið liðsins séu skýr.

„Við sögðum það fyrir mótið að við ætluðum að leyfa mótinu að fara af stað og máta okkur við hin liðin. Nú með tilkomu Ragga að þá finnst mér ekkert óeðlilegt að við reynum að setja stefnuna á að vinna allt sem er í boði, annað væri bara glórulaust. Auðvitað eigum við að hafa augun á öllum titlunum,“ segir Halldór að lokum.

Leikurinn á Ásvöllum hefst klukkan 19:30 á föstudag og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Nýjasta þáttinn af Selfoss hlaðvarpinu má hlusta á hér að neðan:

Fyrri greinVerðlaunasögur í Grunnskólanum í Hveragerði
Næsta greinSjaldséður þokubogi í Sandvíkurhreppnum