Sunnlendingar náðu góðum árangri á jólamóti Lyftingasambands Íslands í ólympískum lyftingum sem haldið var síðastliðinn sunnudag í húsakynnum CrossFit Reykjavíkur.
Fjórir keppendur á vegum Lyftingafélagsins Hengils í Hveragerði tóku þátt á mótinu, þeir Árni Rúnar Baldursson, Einar Alexander Haraldsson, Jan Hinrik Hansen og Matthías Abel Einarsson. Allir áttu þeir gott mót og bættu árangur sinn í lyftunum.
Árni, Einar og Jan höfðu allir keppt áður á lyftingamóti en þetta var fyrsta mót Matthíasar sem er aðeins 15 ára gamall. Hann gerði sér lítið fyrir og setti Íslandsmet, í snörun, jafnhöttun og samanlögðu, í sínum þyngdarflokki, 62 kg flokki, í eftirtöldum aldursflokkum; U15, Youth (16-17 ára) og U23. Þá setti hann Íslandsmet í snörun og samanlögðu í junior flokki (18-20) ára. Eftir mótið er Matthías því handhafi alls ellefu Íslandsmeta í ólympískum lyftingum.
Lyftingafélagið Hengill var stofnað sumarið 2014 vegna mikils áhuga á ólympískum lyftingum meðal iðkenda líkamsræktarstöðvarinnar Crossfit Hengils í Hveragerði. Frá stofnun félagsins hefur verið mikil gróska í starfi þess eins og sjá má á árangri iðkenda félagsins á mótum í greininni. Félagið er opið öllum áhugamönnum um ólympískar lyftingar en æfingar félagsins eru einu sinni í viku og opnar öllum iðkendum félagsins sem lokið hafa námskeiði á vegum félagins þar sem farið er yfir grunnatriði í íþróttagreininni.
Eftirfarandi eru þær þyngdir sem keppendurnir frá Lyftingafélaginu Hengli enduðu með að lyfta
Árni Rúnar: 98 kg snörun og 120 kg jafnhöttun.
Einar Alexander: 105 kg snörun og 122 kg jafnhöttun.
Jan Hinrik: 105 kg snörun og 120 kg jafnhöttun.
Matthías Abel: 58 kg snörun og 70 kg jafnhöttun.