Benedikt Magnússon, kraftlyftingaþjálfari hjá Umf. Selfoss, setti heimsmet í réttstöðulyftu á heimsmeistaramóti WPF (World Powerlifting Federation) sem fram fór í Bath á Englandi á dögunum.
Benedikt keppti í flokki 40-44 ára og fór létt með að rífa upp 323 kíló og bætti hann þar með heimsmetið um hálft kíló.
„Ég á meira inni en þetta og mun vonandi bæta metið aftur á Evrópumeistaramótinu á næsta ári,“ sagði Benedikt í samtali við Sunnlenska en hann var að keppa á sínu fyrsta móti á erlendri grund. „Já, þetta er allt eftir áætlun. Ég hef verið að lyfta frá 20 ára aldri og fór svo markvisst í þetta uppúr þrítugu. Ég sagði það einhverntímann að ég ætlaði að byrja að keppa um fertugt og setja heimsmet þannig að þetta er allt á áætlun,“ sagði Benedikt léttur í bragði en hann er 42 ára gamall. „Ég á nóg eftir. Kraftlyftingar eru frábær íþrótt og menn endast lengi í þessu. Elstu keppendurnir á mótinu í Bath voru t.d. yfir sjötugt.“
Afrakstur íslenska liðsins á mótinu var með ólíkindum góður en samtals vann Ísland þrettán heimsmeistaratitla, fjögur silfur og eitt brons. Að auki settu keppendur Íslands 21 heimsmet á mótinu.