Settu í gírinn í seinni hálfleik

Arna Kristín Einarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann stórsigur á Víkingum í 2. umferð Ragnarsmóts kvenna í handbolta í Set-höllinni Iðu í gærkvöldi.

Heimakonur höfðu frumkvæðið allan tímann og leiddu 13-8 í hálfleik. Þær vínrauðu settu svo í fluggír í seinni hálfleiknum og sigruðu að lokum 35-19.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 6, Katla María Magnúsdóttir 5, Hulda Hrönn Bragadóttir 4, Adela Jóhannsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir, Sylvía Bjarnadóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir, Inga Sól Björnsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 1 mark hver.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir fór á kostum í markinu hjá Selfyssingum, varði 15 skot og var með 58% markvörslu. Cornelia Hermansson stóð vaktina einnig vel og varði 7 skot.

Í hinum leik gærkvöldsins sigraði FH ÍBV 30-25, þar sem Hildur Guðjónsdóttir skoraði 10 mörk fyrir FH og Birna Egilsdóttir og Birna Unnarsdóttir skoruðu 6 mörk fyrir ÍBV.

Lokaumferð Ragnarsmótsins fer fram á morgun, laugardag. Klukkan 13:00 mætast FH og Víkingur og klukkan 15:15 hefst stórleikur Selfoss og ÍBV.

Fyrri greinStórt útihús ónýtt eftir eldsvoða
Næsta greinSkorar á Vegagerðina og ÞG-verk að ljúka samningum um brúarsmíði