Sex frá HSK í landsliðið

Sex íþróttamenn úr röðum HSK eru í nýjum landsliðshóp Frjálsíþróttasambands Íslands sem er byggður á árangri síðustu tólf mánaða.

Sunnlendingarnir í hópnum eru spretthlauparinn Haraldur Einarsson og stökkvararnir Bjarni Már Ólafsson og Hreinn Heiðar Jóhannsson. Fjölþrautakonan Fjóla Signý Hannesdóttir er í hópnum ásamt millivegalengdarhlauparanum Agnesi Erlingsdóttur og gömlu kempunni Vigdísi Guðjónsdóttur sem keppir í spjótkasti.

Auk þeirra er Selfyssingurinn Örn Davíðsson í kastgreinahópnum en hann keppir fyrir FH.

Í hópnum eru 60 manns frá níu félögum en hópurinn kemur saman á laugardaginn kemur, æfir í Laugardalshöllinni og hlýðir á fyrirlestra um ýmis málefni, svo sem svefnrannsóknir og mataræði. Þá mun Jón Arnar Magnússon segja frá ferli sínum sem tugþrautarmaður.

Fyrri grein„Slakaði bara á hjá einhverjum milljónamæringi“
Næsta greinVann 25 milljónir í HHÍ