Sex héraðsmet á Vormóti ÍR

Bryndís Embla Einarsdóttir. Ljósmynd/FRÍ

Sex HSK met voru sett á Vormóti ÍR sem haldið var á ÍR-vellinum í Breiðholti í gær.

Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í spjótkasti, setti fjögur héraðsmet í spjótkasti með 600 gr spjóti og bætti sín eigin met í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Bryndís Embla kastaði 42,03 m og bætti sinn besta árangur um 83 sm.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, varð annar í 800 m hlaupi á nýju HSK-meti en hann bætti eigið met í þessari vegalengd í flokki 16-17 ára, hljóp á 1:58,40 mín og bætti sig um 1,66 sekúndur.

Þá setti Andri Már Óskarsson, Umf. Selfoss, héraðsmet í 3.000 m hlaupi í flokki 11 ára pilta, hljóp á 12:41,59 mín en enginn 11 ára Sunnlendingur átti skráðan árangur í þessari grein.

Gullverðlaun Bryndísar Emblu voru einu gullverðlaun Selfyssinga á mótinu en Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, krækti í gullið þegar hann sigraði í langstökki karla, stökk 6,14 m.

Fyrri greinAð skeyta hvorki um skömm né heiður
Næsta greinAlexandra gefur út nýtt tónlistarmyndband