Sex HSK-met og tvö sunnlensk mótsmet voru sett á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.
Sveit HSK/Selfoss varð í 2. sæti í 4×200 m boðhlaupi 16-17 ára pilta á tímanum 1:36,15 mín. Tíminn er héraðsmet í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára, 20-22 ára og í karlaflokki. Sveitina fótfráu skipuðu þeir Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Unnsteinn Reynisson, Jónas Grétarsson og Dagur Fannar Einarsson. Eldra met var tæplega ársgamalt; 1:37,78 sek, þannig að um var að ræða bætingu upp á 1,63 sekúndur.
Dagur Fannar bætti svo tveimur öðrum metum í safnið en hann sigraði í 400 m hlaupi pilta 16-17 ára á tímanum 51,66 sek. Dagur bætti þar með sex daga gamalt met sem hann hafði sjálfur sett á Stórmóti ÍR helgina áður um 0,26 sekúndur en tíminn er met í bæði 16-17 ára og 18-19 ára flokki pilta.
Dagur Fannar varð einnig Íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi og langstökki 16-17 ára pilta.
Sebastian Þór sló tvö mótsmet
Sebastian Þór Bjarnason setti tvö mótsmet á mótinu í flokki 15 ára pilta, í þrístökki og 60 m grindahlaupi. Sebastian stökk 12,27 m í þrístökkinu og og bætti mótsmet Birgis Jónssonar úr ÍR um 15 sm. Í grindahlaupinu hljóp Sebastian á 8,82 sek og bætti mótsmet Hákons Birkis Grétarssonar, HSK/Selfoss, um 0,1 sekúndu.
Þetta voru langt í frá einu Íslandsmeistaratitlar Sebastians um helgina því hann sigraði einnig í 60 m hlaupi, 200 m hlaupi og langstökki.
Fyrir utan þessa upptalningu unnu keppendur HSK/Selfoss sjö gullverðlaun til viðbótar, átján silfurverðlaun og fimmtán brons.
Lið HSK/Selfoss náði ekki að verja titilinn í stigakeppni félaganna en ÍR sigraði á mótinu með nokkrum yfirburðum. ÍR fékk 392 stig en HSK/Selfoss varð í 2. sæti með 305 stig og FH í 3. sæti með 288 stig.
HSK/Selfoss sigraði hins vegar í stigakeppninni í tveimur aldursflokkum, hjá 15 ára piltum og 16-17 ára stúlkum.
Frábær árangur Kötlu
Enn og aftur vekja keppendur Umf. Kötlu í Mýrdalshreppi athygli fyrir góðan árangur á Meistaramóti. Katla sendi fimm keppendur til leiks og varð í 8. sæti í heildarstigakeppni félaganna. Í flokki 16-17 ára stúlkna náðu Kötlukonur frábærum árangri en liðið varð í 2. sæti í stigakeppninni í þessum flokki og sló mörgum stórum félögum ref fyrir rass.
Katla náði ekki í Íslandsmeistaratitil í þetta skiptið en þrjú silfurverðlaun komu meðal annars í hús. Kristín Ólafsdóttir stökk 9,84 m í þrístökki 16-17 ára stúlkna, Ástþór Jón Tryggvason stökk 11,49 m í þrístökki pilta 20-22 ára og Birna Sólveig Kristófersdóttir hljóp 1.500 m hlaup á 6:43,04 mín í flokki 16-17 ára stúlkna. Að auki unnu keppendur Kötlu þrenn bronsverðlaun.