Sex Íslandsmeistaratitlar á MÍ 11-14 ára

Andri Fannar, Aron Logi, Kristján Karl og Sæþór Elvar urðu Íslandsmeistarar í 4x200 m boðhlaupi 13 ára pilta. Ljósmynd/Selfoss.net

Lið HSK/Selfoss varð í 5. sæti í heildarstigakeppni Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss, sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.

HSK/Selfoss fékk 315,8 stig en ÍR sigraði á mótinu eftir harða keppni við FH, sem varð í 2. sæti. ÍR-ingar hlutu 494,5 stig. Umf. Katla varð í 10. sæti stigakeppninnar með 70,3 stig.

Einn Íslandsmeistaratitill náðist í liðakeppninni en lið HSK/Selfoss sigraði með yfirburðum í stigakeppni 11 ára stúlkna.

Sveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4×200 m hlaupi 13 ára pilta á tímanum 2:11,83 mín. Sveitina skipuðu þeir Sæþór Elvar Jóhannsson, Kristján Karl Gunnarsson, Aron Logi Þrastarson og Andri Fannar Smárason.

Í 11 ára flokki unnu Sunnlendingar fjóra Íslandsmeistaratitla. Nikulás Tumi Ragnarsson, HSK/Selfoss, sigraði í kúluvarpi með kast upp á 8,11 m, Karólína Orradóttir, HSK/Selfoss, stökk 1,20 m í hástökki og sigraði, Álfheiður Silla Heiðarsdóttir, HSK/Selfoss, tók gullið í kúluvarpi með kast upp á 6,79 m og Sigrún Ólafía Pálsdóttir, Umf. Kötlu, kom fyrst í mark í 400 m hlaupi á tímanum 1:16,73 mín og hreppti gullverðlaun.

Fyrri greinHaukar stungu af í seinni hálfleik