Selfyssingar töpuðu fyrsta leik sínum í N-1 deild karla, 33-27, þegar þeir heimsóttu Fram í Safamýrina.
Bæði lið voru taugaveikluð í upphafi og eftir fimm mínútna leik var staðan 1-2 fyrir Selfoss. Þá tóku Framarar við sér og náðu fjögurra marka forskoti, 10-6, og því forskoti héldu þeir fram að leikhléi, 16-12. Sóknarleikur Selfyssinga var slakur og kappið oft meira en forsjáin í vörninni því Selfyssingar fengu fimm sinnum tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik.
Fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik voru arfaslakar hjá Selfyssingum og Fram náði sjö marka forskoti, 22-15. Þá kom ágætur kafli hjá Selfyssingum sem minnkuðu muninn í þrjú mörk, 26-23. Það var ekki síst fyrir tilstilli Helga Hlynssonar markvarðar sem varði sex skot í röð á stuttum tíma. Á meðan hélt Ragnar Jóhannsson Selfyssingum á floti í sókninni en hann skoraði 12 mörk í leiknum. Selfyssingar komust aldrei nær og munurinn jókst aftur á lokamínútunum. Selfyssingar héldu áfram að láta reka sig útaf í seinni hálfleik og liðsmunurinn taldi mikið.
Ragnar var markahæstur Selfyssinga með 12/3 mörk en næstur honum komu Guðjón Drengsson og Helgi Héðinsson með 5 mörk og Atli Kristinsson skoraði 3 mörk snemma leiks. Helgi varði 12 skot og Birkir Bragason 10.