Sex mörk hjá Selfoss

Selfoss sigraði ÍR örugglega á Selfossvelli í kvöld, 6-0, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna.

Strax á 1. mínútu leiksins slapp Katrín Ýr Friðgeirsdóttir ein í gegn en markvörður ÍR sá við henni. Katrín lagði hins vegar upp fyrsta markið á 4. mínútu þegar hún renndi knettinum inn á Guðmundu Brynju Óladóttur sem skoraði af öryggi.

Á 13. mínútu náði Anna Þorsteinsdóttir boltanum með harðfylgi af varnarmanni ÍR inni í vítateignum og skoraði með góðu skoti. Selfoss lét ekki staðar numið og á 25. mínútu fékk Guðmunda sendingu innfyrir. Hún gaf fyrir á Önnu Maríu Friðgeirsdóttur sem kláraði færið auðveldlega. Skömmu síðar átti Guðmunda þrumuskot yfir mark ÍR en staðan var 3-0 í hálfleik.

Þegar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Anna María boltann á auðum sjó inni á vítateig ÍR. Markvörður gestanna varði vel en fimm mínútum síðar fékk Anna María keimlíkt færi og brást þá ekki bogalistin.

Anna María kórónaði svo þrennuna á 59. mínútu eftir góðan undirbúning Guðmundu sem slapp innfyrir hægra megin og gaf fyrir á Önnu sem var dauðafrí í teignum.

Stórsókn Selfyssinga hélt áfram og Dagný Pálsdóttir þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum í marki Selfoss. Dagný Hróbjartsdóttir, Íris Sverrisdóttir og Katrín Ýr hefðu allar getað bætt við mörkum en það var Guðmunda sem skoraði síðasta mark Selfoss og kórónaði þar með frábæran leik sinn. Hún slapp ein innfyrir á 87. mínútu, lék á markvörð ÍR og skoraði í autt markið.

Fyrri greinReyrhagi fallegasta gatan
Næsta greinMyndavélateljari settur upp í Grenlæk