Grunnskólamót HSK í frjálsíþróttum var haldið á Laugarvatni í blíðskaparveðri þann 17. september sl. Sex skólar tóku þátt og voru Hvergerðingar sigursælir.
Því miður nutu keppendur ekki veðursins þar sem áður hafði verið ákveðið að færa keppnina inn fyrir hússins dyr því veðurútlit virtist eiga að vera vindasamt. Keppnin var sem sagt haldin innandyra og kepptu krakkarnir sem skráðu sig í mótið í þremur greinum; 30m spretthlaupi, langstökki án atrennu og kúluvarpi.
Sex skólar skráðu sig til leiks, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Grunnskólinn í Hveragerði, Vallaskóli, Þjórsárskóli, Flúðaskóli og Bláskógaskóli. Keppt var í þremur flokkum hjá hvoru kyni, 5.-6. bekk, 7.-8. bekk og 9.-10. bekk. Ekki náðu þó allir skólar að skrá fulltrúa frá sér í alla flokka. Stig voru veitt þremur efstu keppendum hvers skóla í hverjum flokki (tveir í elsta flokknum) í hverri grein og réðu samanlögð stig keppenda lokaröð skólanna.
Mótið gekk mjög vel fyrir sig og stóðu krakkarnir sig með prýði og voru sannar fyrirmyndir í umgengni, það fór ótrúlega lítið fyrir þeim þrátt fyrir að um 150-160 keppendur væru inni í íþróttahúsinu á Laugarvatni.
Í fyrra var mótið haldið í fyrsta sinn með breyttu fyrirkomulagi frá fyrri árum og þá voru það tveir skólar sem stóðu upp úr og hirtu alla sigra í öllum flokkum, Vallaskóli í stelpnaflokkunum og Grunnskóli Þorlákshafnar í piltaflokkunum. Í ár varð hins vegar nokkur breyting á og fleiri skólar trónuðu á toppnum í sínum flokkum.
Grunnskólameistarar HSK í frjálsíþróttum árið 2013 í hverjum flokki fyrir sig voru eftirfarandi:
5.-6. bekkur stelpur: Grunnskólinn í Hveragerði
7.-8. bekkur stelpur: Grunnskólinn í Hveragerði
9.-10. bekkur stelpur: Vallaskóli
5.-6. bekkur piltar: Bláskógaskóli
7-8. bekkur piltar: Flúðaskóli
9.-10. bekkur piltar: Grunnskólinn í Þorlákshöfn