Sextán stiga sveifla í síðasta fjórðungnum

Ragnar Nathanaelsson og Jose Medina skiluðu góðu dagsverki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frábær endasprettur tryggði Hamri sigurinn í fyrsta leiknum í einvíginu gegn Skallagrími í úrslitum 1. deildar karla í körfubolta en liðin mættust í Hveragerði í kvöld.

Útlitið var ekki gott hjá Hamri framan af, Skallagrímur var skrefinu á undan og ekki boðið upp á neina flugeldasýningu í sóknarleiknum. Staðan var 32-38 í hálfleik.

Skallagrímur jók forskotið örlítið í 3. leikhluta og munurinn var átta stig þegar sá fjórði hófst, 52-60. Þá hrukku Hvergerðingar heldur betur í gang og þeir skoruðu jafn mörg stig í 4. leikhluta og þeir höfðu gert í öllum fyrri hálfleiknum.

Hamar komst yfir, 73-71, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og þeir litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það heldur brunuðu áfram undir forystu Jose Medina sem skoraði níu af síðustu tólf stigum liðsins.

Medina var heldur betur drjúgur í leiknum því hann skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og sendi 8 stoðsendingar. Ragnar Nathanaelsson var sömuleiðis nálægt þreföldu tvennunni með 13 stig, 13 fráköst og 7 varin skot.

Staðan í einvíginu er 1-0 en liðið sem sigrar í þremur leikjum vinnur sér sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Liðin mætast næst í Borgarnesi á sunnudaginn.

Hamar-Skallagrímur 84-78 (14-20, 18-18, 20-22, 32-18)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 30/10 fráköst/8 stoðsendingar, Brendan Howard 20/5 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 13/13 fráköst/7 varin skot, Elías Bjarki Pálsson 11, Daði Berg Grétarsson 5, Björn Ásgeir Ásgeirsson 5/4 fráköst.

Fyrri greinGrýlupottahlaupið hefst á laugardag
Næsta greinGasmengun við upptök Múlakvíslar