Stjórn KSÍ ákvað í gær að síðust leikir Íslandsmótsins í knattspyrnu verði spilaðir í nóvember.
Mótahald hefur legið niðri síðan í byrjun október vegna COVID-19 farsóttarinnar.
Sunnlensku liðin hefja aftur keppni þann 7. nóvember en þá mun Selfoss taka á móti Víði í 2. deild karla og Ægismenn heimsækja Reyni í Sandgerði í 3. deildinni.
Sunnudaginn 8. nóvember tekur Selfoss á móti ÍBV í úrvalsdeild kvenna og Hamar tekur á móti Grindavík í 2. deild kvenna.
Laugardaginn 14. nóvember verður spennandi að gá til veðurs en þá mun Selfoss heimsækja Dalvík/Reyni á Dalvík í lokaumferð 2. deildar karla og á sama tíma tekur Ægir á móti Hetti/Hugin í lokaumferð 3. deildar karla.
Síðasti deildarleikur sunnlensku liðanna verður svo sunnudaginn 15. nóvember en þá mætir Selfoss Val á útivelli í úrvalsdeild kvenna.
Leikir í bikarkeppni kvenna hafa ekki ennþá verið dagsettir en Selfoss og Breiðablik munu mætast í undanúrslitum keppninnar.