HSK/Selfoss sendi tólf unglinga til keppni á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem fram fór á Hornafirði um síðustu helgi. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og lönduðu fjórtán Íslandsmeistaratitlum.
Að auki unnu krakkarnir sex silfurverðlaun og níu bronsverðlaun. Þá setti Thelma Björk Einarsdóttir tvö HSK met í flokki 16-17 ára.
Flokkur 15 ára:
Sigþór Helgason, Umf. Selfoss, vann til fernra gullverðlauna auk tveggja silfurverðlauna. Hann sigraði í kringlukasti með 45,21m sem er bæting um tæpa 3 metra. Í langstökki bætti hann sig um 4 sm þegar hann stökk 5,85 m og sigraði. Þrístökkið sigraði hann með 11,71 m stökki og að lokum sigraði hann í spjótkasti með 52,63 m löngu kasti. Silfurverðlaunin hlaut hann fyrir að svífa yfir 1,76 m í hástökki og kasta kúlunni 12,03 m.
Andrea Vigdís Victorsdóttir, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í spjótkasti er hún þeytti spjótinu 36,68 m. Hún vann til silfurverðlauna í 400 m hlaupi með því að bæta sinn besta árangur um rúma sekúndu og hlaupa á 65,01 sek. Hún vann einnig til þrennra bronsverðlauna, í 100m hlaupi á tímanum 13,95s, í kringlukasti með 36,68m löngu kasti og í 200 m hlaupi með því að bæta sig um hálfa sekúndu og hlaupa á 28,47 sek. Andrea Vigdís bætti sig auk þess um 25 sm í kúluvarpi þegar hún kastaði kúlunni 9,55 m og hafnaði í 5. sæti.
Flokkur 16-17 ára:
Eva Lind Elíasdóttir, Íþf.Þór, varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði glæsilega í 100 m grindahlaupi á tímanum 15,62 sek en í undanrásum bætti hún sinn besta árangur með því að hlaupa á 15,34 sek. Eva Lind sigraði einnig í kúluvarpi með því að kasta kúlunni 12,52 m.
Thelma Björk Einarsdóttir, Umf Selfoss, vann til silfurverðlauna í kringlukasti er hún þeytti kringlunni 27,30m. Í sleggjukasti vann hún til bronsverðlauna með 33,47 m löngu kasti og hún bætti um leið HSK met Jóhönnu Bríetar Helgadóttur í flokki 16-17 ára um rúma 4 metra. Í spjótkasti bætti hún sitt eigið HSK met í flokki 16-17 ára um 9 sm þegar hún kastaði 32,81 m og vann til bronsverðlauna. Að lokum kastaði hún kúlunni 11,73 m og fékk bronsverðlaun að launum.
Andrea Sól Marteinsdóttir, Umf. Selfoss, vann til bronsverðlauna í kringlukasti þegar hún þeytti kringlunni 26,25 m og bætti sinn besta árangur um 87 sm. Guðrún Heiða Bjarnadóttir, Umf Selfoss, stökk til bronsverðlauna í þrístökkinu þegar hún stökk 10,36 m og Elínborg Anna Jóhannsdóttir, Laugdælum, bætti sinn besta árangur í þrístökki um 5 sm þegar hún stökk 10,17 m og hafnaði í 4.sæti. Jón Gautason, Þjótanda, bætti sinn besta árangur í kringlukasti um 22 sm þegar hann kastaði 32,87 m og auk þess bætti hann sig einnig um rúma 2 metra í spjótkasti þegar hann kastaði spjótinu 34,70 m. Hann hafnaði í 4.sæti í þessum greinum.
Sveit HSK/ Selfoss í 4x100m boðhlaupi hljóp til bronsverðlauna á tímanum 51,83 sek en sveitina skipuðu þær Elínborg Anna, Guðrún Heiða, Eva Lind og Andrea Vigdís.
Flokkur 18-19 ára:
Guðmundur Kristinn Jónsson, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í spjótkasti en hann kastaði spjótinu 48,32 m.
Flokkur 20-22 ára:
Bjarni Már Ólafsson, Þjótanda, varð þrefaldur Íslandsmeistari. Hann sigraði í þrístökki með 13,76 m, í langstökki sveif hann 6,15 m og að lokum bætti hann sig um 4 sm í hástökki þegar hann stökk 1,79m og sigraði. Bjarni Már kastaði spjótinu 45,79 m og fékk brons að launum.
Dagur Fannar Magnússon, Umf. Selfoss, varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hann sigraði sleggjukast þegar hann kastaði 45,22 m og kúluvarp með 10,98 m löngu kasti. Eyrún Halla Haraldsdóttir, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í kringlukasti þegar hún kastaði kringlunni 29,87 m og auk þess náði hún silfurverðlaunum í kúluvarpi með 9,32 m löngu kasti.
Sveit HSK/Selfoss vann til silfurverðlauna í 4×100 m boðhlaupi á tímanum 48,89 sek en sveitina skipuðu þeir Jón, Guðmundur Kristinn, Bjarni Már og Sigþór.
Sigþór Helgason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl